Banner image

Víðerni

Síðastliðið sumar var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að dvelja sem skálavörður á Víknaslóðum austur á landi. Þarna dvaldi ég, ásamt 11 ára dóttur minni, á Klyppstað í Loðmundarfirði, langt frá öllu nútíma áreiti, hvort sem það kallast sími, sjónvarp eða samfélagsmiðlar.

Við höfðum með okkur gönguskó og gott bókasafn og borðuðum bláber með rjóma í hvert mál, enda var berjasprettan bæði með besta móti og óvanalega snemma á ferðinni, þökk sé einstakri veðurblíðu á Austurlandi allt síðasta sumar.

Við gengum mikið um svæðið og komumst meðal annars að því að litadýrðin í Hraundal á sér engan sinn líka. Þetta var í fyrsta sinn sem dóttir mín kom á þetta svæði og hún hafði á orði að kyrrðin, róin og þögnin væri ólýsanleg.

Að eiga svæði af þessu tagi, þar sem ekkert er annað en náttúran sjálf, er ómetanlegt. Hvort sem það er dalur sem heitir Hraundalur eða heilu óbyggðirnar sem bera eitthvert allt annað nafn. Slík svæði eiga undir högg að sækja – ekki bara á Íslandi, heldur um allan heim.

Á heimsvísu er fólk í síauknum mæli farið að átta sig á þeim verðmætum sem í víðernum og óbyggðu landi eru fólgin. Íslendingar eru engin undantekning frá þessu og umræða um vernd óbyggðra víðerna hefur orðið æ háværari hér á undanförnum árum.

Slík vitundarvakning er þó því miður ekki komin til af góðu. Það sama á nefnilega við um víðerni og flest annað – eftir því sem þeim fækkar, því meira virði hafa þau.

En hvað eru víðerni?

Í íslenskum náttúruverndarlögum segir að óbyggð víðerni séu svæði í óbyggðum sem eru að minnsta kosti 25 ferkílómetrar að stærð – sem er svona eins og um það bil tvær Heimaeyjar eða 3500 knattspyrnuvellir, til að setja þetta í eitthvert samhengi – eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja, ásamt því að vera í að minnsta kosti fimm kílómetra fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.

Það er því búið að skilgreina bæði stærðar- og fjarlægðarviðmið í lögum fyrir þau svæði sem flokkast sem óbyggð víðerni. Í þessum sömu lögum er svo sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess að vernda jarðfræðilega fjölbreytni landsins og landslagsins með því að standa vörð um óbyggð víðerni.

Nokkrir tugir svæða uppfylla þessi viðmið á Íslandi í dag og ætla má að því stærri og samfelldari sem þau séu, því meira virði hafi þau sem slík. Stærstu óbyggðu víðerni landsins hafa löngum verið á miðhálendinu, eðli málsins samkvæmt, enda hefur verið lítið þangað að sækja fyrir flesta og samgöngur erfiðar.

Á síðustu áratugum hefur þó mikil uppbygging átt sér stað í orkuiðnaði hér á landi og er það einkum í tengslum við aukna raforkuvinnslu fyrir stóriðju, en um 80% af virkjaðri raforku á Íslandi fara til stóriðju á meðan aðeins um 5% fara til heimila landsins. Hin 15 prósentin fara meðal annars í landbúnað og annan iðnað. Engin þjóð í heiminum framleiðir eins mikla raforku og Íslendingar, miðað við höfðatölu, en Norðmenn, sem verma annað sætið, framleiða helmingi minna.

Ýmsum hefur þó þótt þessi uppbygging orkuiðnaðarins dýru verði keypt, en það eru einkum framkvæmdir henni tengdar sem höggvið hafa stór skörð í íslensk víðerni, og virkjunar- og veituframkvæmdir hafa umbylt landslagi með óafturkræfum hætti. Flestar hinar stærri vatnsaflsvirkjanir á Íslandi byggjast á virkjun jökulvatns með miðlunarlónum, sem oftast eru staðsett ofan hálendisbrúnarinnar, ásamt tilheyrandi skurðum og stíflum. Jarðvarmavirkjunum fylgja svo borplön, uppbyggðir vegir, námur, affallslón, raflínur, pípur og hávaðamengun.

Víðerni í Evrópu

Árið 2013 kom út viðamikil skýrsla þar sem tekið var saman heildaryfirlit yfir óbyggð víðerni í Evrópu. Öll Evrópa, að austasta hlutanum undanskildum, var kortlögð með samræmdum hætti og mat var lagt á tiltekna þætti sem gefa ákveðinn mælikvarða á hversu villt náttúran er á hverjum stað í álfunni. Niðurstöður þessarar kortlagningar leiddu í ljós að Íslendingar eru vörslumenn fjörutíu og tveggja prósenta af villtustu víðernum í Evrópu.

Það þýðir að núlifandi kynslóðir sem búa á Íslandi, landi sem er 103 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli, bera ábyrgð á hátt í helmingnum af síðustu villtu víðernum hinnar manngerðu Evrópu gagnvart öllum komandi kynslóðum það sem eftir er. Það er ekki lítil ábyrgð að bera.

article image

Víðerni í Evrópu.

Víðerni í Evrópu.

Víðerni á Íslandi að hverfa

Miðhálendið geymir enn í dag stærstu og líklega þekktustu víðerni landsins, en þau er að finna umhverfis stóru jöklana fjóra, Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul. Þó er mikilvæg víðerni einnig að finna utan miðhálendisins og eru Drangajökulsvíðernin og heiðarnar upp af Þistilfirði og Bakkaflóa á Norð-Austurlandi þeirra stærst.

Sífellt er þrengt að víðernum og þessi fjörutíu og tvö prósent kunna að týna tölunni býsna örugglega ef djörfustu framkvæmdaáform ná fram að ganga. Í meistararannsókn sem unnin var við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2011 var fjallað um stöðu íslenskra víðerna og leitast við að meta ástand þeirra síðstaliðna öld. Niðurstaða rannsóknarinnar var að verulega hafi gengið á íslensk víðerni allt frá árinu 1936 og að frá þeim tíma hafi þau minnkað um tæplega 70%.

Á Íslandi eru sannarlega tækifæri til aukinnar raforkuvinnslu – fossar og vatnasvið sem hægt væri að nýta – en ef til vill má spyrja sig hvenær nóg sé komið og hvort vilji okkar standi til þess að halda áfram að fórna víðernum landsins – þeim síðustu í Evrópu – fyrir enn meiri raforku handa þjóð sem nú þegar framleiðir hlutfallslega meiri raforku en nokkur önnur þjóð í heiminum.

Kannski vekur það upp þá spurningu sem við þurfum fyrst og síðast að spyrja okkur að – það er hvort standi hjarta okkar nær – orkuframkvæmdirnar eða víðernin. Uppbyggingin svokallaða, eða kyrrðin. Hverju ætli komandi kynslóðir myndu svara?

article image

Dóttir höfundar og fjallið Gunnhildur í Loðmundarfirði.

Dóttir höfundar og fjallið Gunnhildur í Loðmundarfirði.

Höfundur er umhverfisfræðingur.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Samfélaginu á Rás 1, fimmtudaginn 23. maí 2019 en síðar birtur á Facebooksíðu höfundar.