Víðerni án verndar
Sif Konráðsdóttir
2022-06-10
Ekkert landsvæði í eigu íslenska ríkisins er friðlýst sem víðerni. Ekki ein þjóðlenda.
Í nafni líffræðilegs fjölbreytileika hafa mörg ríki nú tekið til við að setja sér stefnu um verndun víðerna. Þéttbýla iðnaðarríkið Þýskaland hefur sett markið á 2%. Í landbúnaðarlandinu Frakklandi eru þrjú ár síðan Macron forseti setti það metnaðarfulla markmið að 10% landsins verði vernduð sem víðerni.
Á Íslandi hefur 0,1% lands verið friðlýst sem víðerni. Engin stefna er um friðlýsingu víðerna á Íslandi. Eina friðlýsta víðernið er land í eigu einkaaðila: Drangar á Ströndum, 105 km².
Víðerni á hálendi Íslands eru að stórum hluta þjóðlendur og með þær fer forsætisráðherra. Undanfarin misseri hefur ráðafólki orðið tíðrætt um hvað Ísland geymir stóran hluta af óspilltustu víðernum Evrópu, heil 43%, og hve mikilvægt sé að standa vörð um þau.
Nýleg víðernakortlagning almannasamtaka sýnir að vinna mætti að friðlýsingu allt að helmings miðhálendisins sem víðerna, væri til þess vilji. Friðlýsingarflokkar náttúruverndarlaga eru nokkrir og byggja á alþjóðlegum viðmiðum. Víðerni eiga sér þar sérstakan friðlýsingarflokk og er verndun þeirra sérstakt markmið með lögunum.
Er Íslendingum, með öll sín víðerni, alls ekki í gefið að vernda þau sömu víðerni?
Höfundur er lögmaður.
Greinin britist fyrst á Kjarnanum.