Víðernin vernda sig ekki sjálf
Salome Hallfreðsdóttir
2019-02-15
Fyrir áratug síðan, þegar ég hóf nám í umhverfisvísindum í Svíþjóð (þið munið stuttu eftir bankahrunið og stuttu eftir formlega gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar), taldi ég mig ágætlega upplýsta um umhverfismál. Á fyrstu vikum námsins, þegar ég tók inngangskúrs um helstu umhverfisvandamál heimsbyggðarinnar og ástæður fyrir þeim, komst ég reyndar að því að ég vissi nú ekki eins mikið og ég hélt.
Allt þetta tveggja ára meistaranám var eins og köld vatnsgusa í andlitið á hverjum degi og mér leið eins og ég ætti risastór umhverfisleyndarmál sem enginn vissi. Ég var komin með vitneskju sem átti í raun og veru erindi við alla en fáir virtust vera að pæla í. Af hverju var það svo (og er að mörgu leyti enn þó að umhverfisvitund Íslendinga hafi snarbreyst á þessum áratug) að öll þessi umhverfisvandamál sem snerta alla heimsbyggðina voru ekki meira í umræðunni á þeim tíma? Það eru auðvitað óteljandi svör við þessari spurningu sem ég ætla ekki að fjalla um hér, en er alltaf til í að gera það yfir góðum kaffibolla.
Á þessum fyrstu vikum Svíþjóðardvalar komst ég yfir Evrópukort sem ég hafði aldrei áður séð. Kortið sýndi síðustu óbyggðu víðerni sem eftir voru í Evrópu. Þau voru eiginlega engin. Náttúra á meginlandi Evrópu var orðin það manngerð og röskuð að nánast ekkert var eftir af óbyggðum víðernum. Ein stærstu samfelldu víðernin voru nokkrir bútar á Íslandi, annars vegar á miðhálendinu og hins vegar á Vestfjarðakjálkanum. Af hverju var enginn að tala um þetta á þeim tíma og af hverju eru fáir að tala um þetta núna?
Núna, áratug seinna, hefur víðernum á Íslandi verið raskað á ógnarhraða. Ég er enn að velta því fyrir mér hvort við Íslendingar gerum okkur yfir höfuð grein fyrir því hvað óbyggð víðerni eru gríðarlega mikilvæg og merkileg auðlind. Ég velti því líka stundum fyrir mér hvort fólk telji að auðlind eigi að vera eitthvað áþreifanlegra en náttúran sjálf. Verður auðlind að vera eitthvað sem við getum notað, breytt og selt? Eða má auðlind vera eitthvað sem við getum notað óbreytt og átt um aldur og ævi?
Óbyggð víðerni eru auðlind sem okkur ber að vernda, ekki bara samkvæmt íslenskum náttúruverndarlögum heldur líka út frá siðfræði náttúrunnar. Okkur ber skylda til þess að vernda víðernin svo komandi kynslóðir geti fengið að njóta óbyggðanna til jafns við okkur.
Í þessari grein sem birtist á Kjarnanum í dag kemur fram að Íslendingar eru vörslumenn 42% af allra villtustu víðernum Evrópu. Hugsið ykkur. 42%! Núlifandi kynslóðir bera ábyrgð á allra síðustu villtu víðernum hinnar manngerðu Evrópu gagnvart öllum komandi kynslóðum það sem eftir er. Þetta er gríðarleg ábyrgð sem við verðum að taka alvarlega.
Það skal engan undra að fólk sem er búið að átta sig á þessu sé að gera allt sem í valdi þess stendur til að vekja athygli á því þegar við förum illa með náttúruauðlindir. Náttúran á ekki að vera byggðapólitískt þrætuepli og náttúra landsins er í eigu okkar allra – líka þótt heimili okkar kunni að vera í öðru póstnúmeri en sú náttúra sem um ræðir hverju sinni.
Ég vona að stjórnvöld geri átak í því að kortleggja óbyggð víðerni landsins og vernda þau skv. lögum og standa við þá ábyrgð sem okkur ber gagnvart náttúrunni sjálfri og komandi kynslóðum. Við sem lifum núna erum einungis vörslumenn landsins.
Höfundur er umhverfisfræðingur.
Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu höfundar.