Virkjanavilla á Ófeigsfjarðarheiði
Valgeir Benediktsson
2019-02-23
Á undanförnum árum og misserum hafa fjölmargir sérfræðingar og leikmenn á sviði raforkumála bent á hversu óhagkvæm virkjun á Ófeigsfjarðarheiði sé og valdi miklum og óafturkræfum náttúruspjöllum. Þessi viðhorf endurspeglast í aðsendum athugasemdum við breytingartillögu á deiliskipulagi Árneshrepps sem auglýst var í haust í annað sinn. Við þetta bætist síðan ný og vönduð skýrsla Environice sem fjallar m.a. um að friðlýsa Drangajökulssvæðið.
Það hefur lengi verið vitað að hægt væri að virkja í Ófeigsfirði, en áður en HS orka/Vesturverk kom að borðinu höfðu hvorki Orkubú Vestfjarða né Landsvirkjun neinn áhuga á þessum virkjunarkosti. Gerðu sér væntanlega vel grein fyrir að virkjun á þessum stað í órafjarlægð frá dreifikerfinu væri bæði dýr og óhagkvæm, og mundi með engu móti standa undir lögbundnum tengikostnaði.
Málið tók hinsvegar aðra stefnu með pólitísku inngripi iðnaðarráðherrans Ragnheiðar Elínar sem, eins og kunnugt er, setti reglugerð sem gefur þeirri virkjun sem fyrst tengist nýjum punkti afslátt af öllum tengikostnaði og sparar þannig HS orku/Vesturverki milljarða. Þannig liðkaði þáverandi ráðherra verulega fyrir þessu verkefni. Kostnaðurinn, ef af þessum skandal verður, mun því lenda á almennum raforkunotendum. Þetta plott var eitt af fyrstu afrekum HS Orku/Vesturverks vegna þessarar fyrirhuguðu virkjunar.
En Hvalárvirkjun vermir hins vegar áfram botnsætið sem óhagkvæmasti virkjunarkosturinn í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Ókostir þessarar virkjunar felast ekki síst í gríðarlegum og óafturkræfum umhverfisspjöllum, og má þá minna á það að umhverfismat vegna línulagna hefur enn ekki farið fram, en ætti að sjálfsögðu að liggja fyrir samhliða mati á umhverfisáhrifum vegna vegagerðar og virkjunarinnar sjálfrar. Það mat fékk eins og kunnugt er falleinkunn hjá Skipulagsstofnun.
Það voru ýmsir sem spáðu því að aðkoma HS orku að virkjun á Ófeigsfjarðarheiði mundi ekki hafa bætandi áhrif á hið fámenna samfélag í Árneshreppi. Það hefur því miður gengið eftir.
HS orka/Vesturverk hefur stundað blygðunarlausan blekkingarleik bæði gagnvart Vestfirðingum og svo Árneshreppsbúum. Blákalt hefur því verið haldið að Vestfirðingum að Hvalárvirkjun muni stórbæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Þessar fullyrðingar er fyrir löngu búið að hrekja og þær standast enga skoðun.
Í Árneshreppi lagði HS orka/Vesturverk fram kostulegan loforðalista til að tryggja sér grænt ljós fyrir virkjuninni. Flest af þessum verkefnum sem á listanum eru er þó öðrum en HS Orku/Vesturverki ætlað að framkvæma og fjármagna eins og bættar samgöngur í hreppinn. Vegagerð og samgöngur eru þó á forræði Vegagerðarinnar en ekki HS Orku/Vesturverks eins og flestir vita. Þrífösun rafmagns um hreppinn var eitt af loforðunum, það verkefni er á hendi Orkubús Vestfjarða ekki HS Orku/Vesturverks. Ljósleiðari um sveitina var líka á listanum en lagning ljósleiðara er óvart verkefni Mílu en ekki HS Orku/ Vesturverks. Aðeins eitt af þessum loforðum gæti talist trúverðugt, það er hlutdeild í kostnaði við lagningu hitaveitu í Norðurfjörð. En svo kom stóra trompið sem átti að kveða endanlega niður allar efasemdaraddir ef einhverjar væru. Lundabúð (Vesturverk kallaði það upplýsingamiðstöð) uppi í fjalli norðan Hvalár í yfirgefnum vinnubúðum verktaka að loknum framkvæmdum við virkjunina.
En það var smá hængur á þessu. Ekkert af því átti að gerast nema vilyrði fengist innan sveitarfélagsins til virkjunarframkvæmda í Ófeigsfirði. Og svona hefur HS Orka / Vesturverk unnið, býr til fléttu til þess að komast hjá milljarða tengigjöldum vegna virkjunarinnar og velta þeim kostnaði yfir á almenning. Reynir síðan að kaupa sér brautargengi hjá fámennasta sveitarfélagi landsins með loforðum sem í flestum tilfellum er engin innistæða fyrir. Sveitarfélagi sem stendur veikt fyrir á viðkvæmum tímamótum. Það er á vissan hátt hægt að skilja að gripið sé í þau hálmstrá sem eru í boði, en þau reynast þá visin og ónýt.
HS Orka/Vesturverk ætlar svo að þakka fyrir sig með því að spilla og í raun eyðileggja ein stærstu samfelldu víðerni landsins með virkjun sem engin þörf er fyrir.
Höfundur er búsettur í Árneshreppi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.