Hvalárvirkjun á Ströndum: Ríkisstyrkur til einkaaðila
Snorri Baldursson
2016-09-15
Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði sætir nú mati á umhverfisáhrifum og hefur verkfræðistofan Verkís skilað inn viðamikilli frummatsskýrslu (sjá fyrri grein). Hvalárvirkjun var skipað í orkunýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar á grunni verðmæta- og áhrifaeinkunna undir meðallagi. Þá sem nú lá fyrir að þessi virkjun væri óhagkvæm vegna mikils tengikostnaðar við við flutningskerfi raforku, landsnetið. Í fyrri grein var rætt um þau gríðarlegu umhverfisáhrif sem þessi virkjun mun hafa á eyðibyggðir og víðerni á norðanverðum Ströndum. Í þessari grein verður sjónum beint að því hvernig ríkisvaldið hyggst greiða fyrir því að einkafyrirtæki, VesturVerk (Eigendur Vesturverks eru HS-Orka, Gunnar G. Magnússon vélatæknifræðingur, Valdimar Steinþórsson rekstrarfræðingur, og Hallvarður E. Aspelund arkitekt.), geti ráðist í þessa virkjun og hagnast á henni.
Forsendur Hvalárvirkjunar
Áætluð stærð fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar er 55 MW. Markmið hennar skv. matsskýrslu Verkís (bls. 1) er „…að virkja rennsli ánna Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár til að framleiða orku til nota við uppbyggingu atvinnustarfsemi sem nýtir orku við framleiðslu.“ Aðeins síðar segir „Ekki er ljóst nú til hvaða atvinnustarfsemi orkan verður einkum seld“. Að mati undirritaðs er vart hægt að hugsa sér metnaðarlausara meginmarkmið með virkjun sem fórnar jafn miklum náttúruverðmætum og við blasir (sjá fyrri grein) aðeins til þess að geta selt einhverjum orku sem hugsanlega vill kaupa hana til að knýja einhverja atvinnustarfsemi.
Markmið VesturVerks með byggingu virkjunarinnar er sagt vera að stuðla að auknu öryggi raforkudreifingar á Vestfjörðum. „Virkjun Hvalár og tenging hennar við flutningskerfi Landsnets mun auðvelda hringtengingu raforku um Vestfirði..” (bls. 1). Síðar í matsskýrslunni (bls. 42) kemur reyndar fram að þetta sé aðeins mögulegt vegna fyrirætlana iðnaðarráðherra um að ríkið leggi fram fé til að setja upp tengivirki við Nauteyri í Ísafjarðardjúpi og línu þaðan í Geiradal í Króksfirði á Ströndum.
Þar með þarf fyrirtækið VesturVerk aðeins að leggja línu frá Hvalá um Ófeigsfjarðarheiði til Nauteyrar (áætlað tengigjald 526 mkr.) í stað þess að fara alla leið suður í Geiradal (áætlað tengigjald 1960 mkr), og sparar þannig 1434 mkr. Þess má þó geta að tenging yfir Ófeigsfjarðarheiði var metin „erfið” í skýrslu sem starfshópur iðnaðarráðherra skilaði 2012, Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.
En er eitthvað unnið fyrir Vestfirðinga með tengingu frá Hvalá að Geiradal um Nauteyri við Ísafjarðardjúp? Truflanir í raforkuafhendingu á norðanverðum Vestfjörðum hafa lengi verið til umræðu. Í skýrslu sem Landsnet birti árið 2009, Bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, gerði fyrirtækið grein fyrir mögulegum úrbótum. Í kjölfarið var komið upp sjálfvirkri varaaflsstöð á Bolungarvík til að koma í veg fyrir straumleysi þar og á Ísafirði. Lesa má um hvernig til tókst ársskýrslu Orkubús Vestfjarða fyrir árið 2015 (bls. 4): „Nokkrar óveðurslægðir fóru yfir Vestfirði á síðasta ári og sú versta í byrjun desember. Þetta óveður grandaði tæplega 200 staurum í loftlínukerfi OV og rúmlega 20 tvístæðum í flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum. Fyrr á árum hefðu þessir atburðir valdið fleiri sólahringa rafmagnsleysi í þéttbýli og dreifbýli en með varaflsstöð Landsnets í Bolungarvík, strenglögnum OV á liðnum árum og auknum viðbúnaði með varaaflsvélum varð straumleysi hjá notendum í lágmarki þrátt fyrir mestu línubrot í sögu OV.“
Að miklu leyti er því vitnað í fortíðarvanda þegar rætt er um lítið raforkuöryggi á norðanverðum Vestfjörðum.
Í áðurnefndri skýrslu Landsnets segir um tengingu hugsanlegrar Hvalárvirkjunar við flutningskerfið í Geiradal (bls. 3-4): „Tengikostnaður er verulega hár og þjóðhagslegur ábati (í formi lækkunar á samfélagslegum kostnaði vegna straumleysis) er ekki það mikill að hann nægi til þess að arðsemi tengingarinnar sé jákvæð. Það hafa heldur ekki farið fram athuganir á hugsanlegum strengleiðum á botni Ísafjarðardjúps, t.d. með tilliti til fiskimiða og siglingaleiða.“ Aðeins síðar segir: „Tenging Hvalárvirkjunar í Geiradal hefur lítil áhrif á spennu og afhendingaröryggi á norðanverðum Vestfjörðum. Við óbreytt ástand er þörf á aukinni launaflsframleiðslu, til dæmis á Ísafirði. Það er óbreytt þó Hvalárvirkjun tengist í Geiradal. Tenging í Geiradal leysir um það bil 5 – 10% af þeim straumleysistilvikum sem upp koma á Vesturlínu. Hvorug tengileiðin er arðsöm, hvorki fyrir Landsnet né þjóðhagslega.“
Sem sagt, Hvalárvirkjun og tenging hennar við Geiradal, hvort sem farið er beina leið eða um tengivirki á Nauteyri við Ísafjarðardjúp, mun aðeins leysa 5 – 10% af þeim rafmagnstruflunum sem kvartað er yfir.
Iðnaðarráðherra rær því nú öllum árum að því að ríkið, í gegn um Landsnet, leggi feiknalegar upphæðir í að greiða niður óhagkvæm flutningsmannvirki sem í litlu sem engu bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum!
Raforkutruflanir á Vestfjörðum stafa ekki síst af bilunum á loftlínum á heiðunum norðan Mjólkárvirkjunar. Raunhæfasta bótin á þeim vanda, og mun ódýrari en niðurgreidd flutningsmannvirki frá fyrirhugaðri Hvalárvirkjun, virðist því felast í stærri spenni við Mjólká og lagningu 66 kv jarðstrengs þaðan um væntanleg Dýrafjarðargöng og Vestfjarðargöng. Hvers vegna er þessi möguleiki ekki ræddur?
Iðnaðarráðherra og virkjunaraðilar hafa réttlætt mögulegt tengivirki á Nauteyri við Ísafjarðardjúp sem byrjun á hringtengingu raflína á Vestfjörðum. Landsnet hefur hinsvegar bent á að slík hringtenging sé einfaldlega of dýr miðað við raforkunotkun og tilkostnað. Tenging frá Nauteyri á Ísafjörð kostar a.m.k. 2 milljarða króna og tvöföldun um 180 km langrar Vesturlínu frá Mjólká í Hrútafjörð yfir 9 milljarða, svo fátt eitt sé talið. Engin raunhæf áform eru uppi um slíka hringtengingu.
Mun farsælli kostur (en Hvalárvirkjun) fyrir Vestfirðinga, og umtalsvert skárri umhverfislega, virðist vera lítil virkjun í Djúpinu (Skúfnavötn eða Austurgil), jarðstrengur vestur Snæfjallaströnd og sæstrengur þaðan þvert yfir Djúpið til Ísafjarðar. Virkjunin þyrfti að duga vel fyrir eðlilegri atvinnuuppbyggingu á Ísafirði og nágrenni. Raforkunotendur á Suðurfjörðunum nytu líka góðs af þessari tengingu ef lagðir yrðu jarðstrengir í núverandi og væntanleg jarðgöng á svæðinu.
Orkugeirinn, sveitarfélög og ríkið verða að fara sníða orkuöflun eftir vexti. Í tilviki Hvalárvirkjunar er verið að ræða milljarða fjárfestingu Landsnets [fyrirtækis í ríkiseigu] til þess að virkjun, sem er of stór fyrir orkuflutningskerfið og markaðinn á Vestfjörðum, verði hagkvæmur fjárfestingarkostur fyrir einkaaðila. Er slík ríkisaðstoð réttlætanleg miðað svo lítinn ávinning sem raun ber vitni, að ekki sé talað um fórnarkostnaðinn? VesturVerk mun að öllum líkindum græða vel á framkvæmdinni en ólíklegt er að ávinningur íbúa verði merkjanlegur til langs tíma litið.
Sífellt gengur á óbyggðir jarðarinnar og þær verða verðmætari með hverju nýju framkvæmdasvæði sem við bætist.
Á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar væri auðveldlega hægt stofna glæsilegan þjóðgarð – sem spannað gæti svæðið allt frá Ingólfsfirði á Ströndum að austanverðu og a.m.k. frá Kaldalóni, ef ekki Langadalsströnd allri, að vestanverðu til og með Hornstranda – og byggja hann upp hann upp af miklum myndarskap fyrir sambærilegan ríkisstyrk og fyrirhugaður er vegna Hvalárvirkjunar. Fyrir þá upphæð má einnig greiða sveitarfélaginu aðstöðugjöld fyrir mannvirki þjóðgarðsins og landeigendum sanngjarnt verð fyrir afnot af landinu. Undirritaður er ekki í nokkrum vafa um að langtímaávinningur samfélagsins á Ströndum af þjóðgarði og þeirri atvinnuuppbyggingu sem gæti orðið í kring um hann á næstu áratugum yrði margfaldur á við virkjun. Ég skora því á Strandamenn að hafna öllum virkjunarhugmyndum í Hvalá og nágrenni en knýja þess í stað á um stuðning ríkisins við stofnun þjóðgarðs á svæðinu.
Höfundur var formaður Landverndar 2015–17.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.